Hallelúja.
Sæll er sá sem óttast Drottin
og gleðst yfir boðum hans.
Niðjar hans verða voldugir í landinu,
ætt réttvísra mun blessun hljóta.
Nægtir og auðæfi eru í húsi hans
og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.
Réttvísum skín ljós í myrkri,
mildum, miskunnsömum og réttlátum.
Vel farnast þeim sem lánar fúslega
og annast málefni sín af réttvísi
því að hann mun aldrei haggast.
Minning hins réttláta er ævarandi,
hann þarf ekki að kvíða ótíðindum,
hjarta hans er stöðugt, hann treystir Drottni.
Hjarta hans er óhult, hann óttast ekki;
skjótt fær hann að líta fall óvina sinna.
Hann hefur miðlað mildilega og gefið fátækum,
réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu,
horn hans er hafið upp með sæmd.
Hinn óguðlegi sér það og honum gremst,
hann gnístir tönnum og ferst.
Óskir óguðlegra rætast ekki.