Fyrst þið dóuð með Kristi og eruð laus undan valdi heimsvættanna, hvers vegna hagið þið ykkur þá eins og þið lifðuð lífi þessa heims og látið leggja fyrir ykkur boð eins og þessi: „Snertu ekki, bragðaðu ekki, taktu ekki á?“ – Allt mun þetta þó eyðast við notkun. – Mannaboðorð og mannasetningar. Þó hefur þetta að sönnu orð á sér sem speki, slík sjálfvalin dýrkun og auðmýking og harðneskja við líkamann. En gildi hefur það ekkert, fullnægir aðeins eigin hvötum.
Fyrst þið því eruð uppvakin með Kristi, þá keppist eftir því sem er hið efra þar sem Kristur situr við hægri hönd Guðs. Hugsið um það sem er hið efra en ekki um það sem á jörðinni er. Því að þið eruð dáin og líf ykkar er fólgið með Kristi í Guði. Þegar Kristur, sem er líf ykkar, opinberast, þá munuð þið og ásamt honum opinberast í dýrð.
Deyðið því hið jarðbundna í fari ykkar: hórdóm, saurlifnað, losta, vonda fýsn og ágirnd sem ekki er annað en skurðgoðadýrkun. Af þessu kemur reiði Guðs yfir þá sem hlýða honum ekki. Meðal þeirra voruð einnig þið áður þegar þið lifðuð í þessum syndum. En nú skuluð þið segja skilið við allt þetta: reiði, bræði, vonsku, lastmæli, svívirðilegt orðbragð. Ljúgið ekki hvert að öðru því þið hafið afklæðst hinum gamla manni með gjörðum hans og íklæðst hinum nýja sem Guð er að skapa að nýju í sinni mynd til þess að þið fáið gjörþekkt hann. Þar er hvorki grískur maður né Gyðingur, umskorinn né óumskorinn, útlendingur, Skýti, þræll né frjáls maður, þar er Kristur allt og í öllum.