Þess vegna beygi ég kné mín fyrir föðurnum, sem hvert faðerni fær nafn af á himni og jörðu, að hann gefi ykkur af ríkdómi dýrðar sinnar að styrkjast fyrir anda sinn að krafti hið innra með ykkur til þess að Kristur megi fyrir trúna búa í hjörtum ykkar og þið verða rótfest og grundvölluð í kærleika. Mættuð þið því geta skilið það með öllum heilögum hvílík er víddin og lengdin, hæðin og dýptin í kærleika Krists og fá að sannreyna hann, sem gnæfir yfir alla þekkingu, og ná að fyllast allri Guðs fyllingu.
En honum, sem í oss verkar með krafti sínum og megnar að gera langt fram yfir allt það sem vér biðjum eða skynjum, honum sé dýrð í kirkjunni og í Kristi Jesú með öllum kynslóðum um aldir alda. Amen.
Ég, bandinginn vegna Drottins, áminni ykkur þess vegna um að hegða ykkur svo sem samboðið er þeirri köllun sem þið hafið hlotið. Verið í hvívetna lítillát og hógvær. Verið þolinmóð, langlynd, umberið og elskið hvert annað. Kappkostið að varðveita einingu andans í bandi friðarins. Einn er líkaminn og einn andinn eins og Guð gaf ykkur líka eina von þegar hann kallaði ykkur. Einn er Drottinn, ein trú, ein skírn, einn Guð og faðir allra, sem er yfir öllum, með öllum og í öllum.