Eftir að hafa heyrt um trú ykkar á Drottin Jesú og um kærleika ykkar til allra heilagra hef ég þess vegna ekki heldur látið af að þakka fyrir ykkur er ég minnist ykkar í bænum mínum. Ég bið Guð Drottins vors Jesú Krists, föður dýrðarinnar, að gefa ykkur anda speki og opinberunar svo að þið fáið þekkt hann. Ég bið hann að upplýsa sjón hjartans svo að þið sjáið hver sú von er sem hann hefur kallað okkur til, hve ríkulega og dýrlega arfleifð hann ætlar okkur meðal hinna heilögu og hve kröftuglega hann verkar í okkur sem trúum. En þetta er sami áhrifamikli, kröftugi mátturinn sem hann lét koma fram í Kristi er hann vakti hann frá dauðum og lét hann setjast sér til hægri handar á himnum, ofar hverri tign og valdi og mætti, ofar öllum herradómi og sérhverju nafni sem nefnt er, ekki aðeins í þessari veröld heldur og í hinni komandi. Allt hefur hann lagt undir fætur honum og gefið hann kirkjunni sem höfuðið yfir öllu. En kirkjan er líkami hans og fyllist af honum sem sjálfur fyllir allt í öllu.
Þið voruð dauð vegna afbrota ykkar og synda sem þið lifðuð í áður samkvæmt aldarhætti þessa heims að vilja valdhafans í loftinu, anda þess, sem nú verkar í þeim, sem ekki trúa. Eins lifðum við öll fyrrum, lutum jarðbundnum girndum, gerðum það sem okkur lysti og refsidómur Guðs vofði yfir okkur eins og öðrum mönnum.
En Guð er auðugur að miskunn. Svo mikil var elska hans til okkar að þótt við værum dauð vegna misgjörða okkar endurlífgaði hann okkur með Kristi – af náð eruð þið hólpin orðin – og reisti okkur upp með Kristi Jesú og bjó okkur stað hjá honum í himinhæðum. Þannig vildi hann sýna á komandi öldum ómælanlega auðlegð náðar sinnar og gæsku við okkur í Kristi Jesú, því að af náð eruð þið hólpin orðin fyrir trú. Þetta er ekki ykkur að þakka. Það er Guðs gjöf. Ekki byggt á verkum, enginn skal geta miklast af því. Við erum smíð Guðs, sköpuð í Kristi Jesú til góðra verka sem hann hefur áður fyrirbúið til þess að við skyldum leggja stund á þau.