Sjáið nú að ég einn er Guð,
enginn ríkir mér við hlið.
Ég deyði og ég lífga,
ég særi og ég græði,
enginn fær frelsað úr hendi minni.
Ég hef hönd mína til himins og segi:
Svo sannarlega sem ég lifi að eilífu,
þegar ég hef hvesst mitt leiftrandi sverð,
tekið réttinn í mínar hendur
mun ég hefna mín á fjandmönnum mínum,
endurgjalda þeim sem hata mig.
Ég mun gera örvar mínar ölvaðar af blóði
og sverð mitt skal eta hold,
þær verða drukknar af blóði fallinna og fanga
og æðstu foringja fjandmannanna.
Himinn, fagnaðu sigri,
tilbiðjið hann, guðasynir, því að hann hefnir blóðs þjóna sinna
og hefnir sín á fjandmönnum sínum
en fyrirgefur landi þjóðar sinnar.
Móse kom ásamt Hósea Núnssyni og flutti þjóðinni allt þetta kvæði í heyranda hljóði.
Þegar Móse hafði lokið við að flytja öll þessi ákvæði fyrir öllum Ísrael sagði hann: „Leggið ykkur á hjarta öll þau orð sem ég hef flutt ykkur í dag. Brýnið fyrir börnum ykkar að halda öll ákvæði þessara laga og framfylgja þeim. Þau eru ekki innantóm orð sem engu skipta, þau eru sjálft líf ykkar því að sakir þessara orða verðið þið langlíf í landinu sem þið haldið nú inn í yfir Jórdan til að taka það til eignar.“
Þann sama dag ávarpaði Drottinn Móse og sagði:
„Farðu upp á Abarímfjall, fjallið Nebó í Móabslandi, gegnt Jeríkó, og horfðu yfir Kanaansland sem ég fæ Ísraelsmönnum til eignar. Þú átt að deyja á fjallinu sem þú gengur upp á og safnast til þíns fólks eins og Aron bróðir þinn dó á Hórfjalli og safnaðist til síns fólks, af því að þið báðir brugðuð trúnaði við mig meðal Ísraelsmanna hjá Meríbavötnum við Kades í Sínaíeyðimörkinni og virtuð mig ekki sem hinn heilaga meðal Ísraelsmanna. Þótt þú megir horfa yfir til landsins færðu ekki að koma inn í landið sem ég gef Ísraelsmönnum.“