Jakob át fylli sína,
Jesjúrún varð feitur og sparkaði,
þú fitnaðir, varðst digur og sællegur.
Hann hafnaði Guði sem mótaði hann,
forsmáði klettinn sem bjargaði honum.
Þeir vöktu afbrýði Drottins með framandi guðum,
ögruðu honum með viðurstyggilegum skurðgoðum.
Þeir færðu fórnir illum öndum sem engir guðir eru,
guðum sem þeir þekktu ekki áður,
nýjum guðum, nýlega fram komnum,
sem vöktu feðrum yðar engan ugg.
Þú afræktir bjargið sem gat þig,
gleymdir Guði sem ól þig.
Drottinn sá það og hafnaði þeim
því að synir hans og dætur vöktu heift hans.
Hann sagði: „Ég mun byrgja auglit mitt fyrir þeim,
ætla að sjá hvað um þau verður,
því að þau eru þverúðug kynslóð,
börn sem engin tryggð finnst í.
Þau vöktu afbrýði mína með því sem ekki er guð,
vöktu heift mína með fánýtum skurðgoðum.
Nú vek ég afbrýði þeirra með því sem ekki er þjóð,
ögra þeim með heimskum lýð.
Úr nösum mér standa eldtungur
sem brenna niður í djúp heljar,
eyða jörð og jarðargróða,
leggja eld í grundvöll fjalla.
Ég mun hlaða að þeim hvers kyns böli,
eyða á þá örvum mínum.
Tærandi hungri, eyðandi plágu,
drepsótt og vígtenntu dýri
sleppi ég lausu á þá
og eitri þeirra sem í duftinu skríða.
Á strætum úti sviptir sverðið þá börnum,
í húsum inni mun skelfingin deyða
æskumann og yngismey,
brjóstmylking og öldung.
Ég hefði getað sagt: Þeim mun ég eyða,
afmá minningu þeirra meðal manna,
ef ég óttaðist ekki að óvinir Ísraels blekktu með því að segja:
Hönd okkar er sigursæl,
ekkert af þessu gerði Drottinn.“
En þeir eru ráðþrota þjóð,
skilning hafa þeir engan.
Væru þeir vitrir skildu þeir þetta,
væri ljóst hvað þeir eiga í vændum.