Til söngstjórans. Davíðssálmur.
Þú, Guð lofsöngs míns, ver eigi hljóður
því að óguðlegan og svikulan munn opna þeir gegn mér,
tala við mig með ljúgandi tungu.
Með hatursorðum umkringja þeir mig
og áreita mig að ástæðulausu.
Þeir launa elsku mína með fjandskap
en ég endurgeld þeim með bæn.
Þeir launa mér gott með illu
og elsku mína með hatri.
Sendið óguðlegan gegn mótstöðumanni mínum
og ákærandinn standi honum til hægri handar.
Hann gangi sakfelldur frá dómi
og bæn hans verði honum til áfellis.
Dagar hans verði fáir
og annar hljóti embætti hans.
Börn hans verði föðurlaus
og kona hans ekkja,
börn hans fari á flæking og vergang,
rekin úr rústum heimilis síns.
Okrarinn leggi snöru fyrir allar eigur hans
og ókunnugir ræni afla hans.
Enginn sýni honum líkn
og enginn aumkist yfir föðurlaus börn hans.
Niðjar hans verði afmáðir,
nöfn þeirra þurrkuð út í næstu kynslóð.
Drottinn minnist misgjörðar feðra hans
og synd móður hans verði ekki afmáð,
séu þær ætíð fyrir augum Drottins,
hann afmái minningu hans af jörðinni