Ef þú heldur ekki öll ákvæði þessa lögmáls sem skráð eru á þessa bók og breytir eftir þeim, og berð lotningu fyrir hinu dýrlega og ógnvekjandi nafni, nafninu Drottinn, Guð þinn, mun Drottinn slá þig og niðja þína óvenjulegum plágum, þungum og þrálátum plágum og illkynja og þrálátum sjúkdómum. Hann mun senda aftur yfir þig allar sóttir Egyptalands sem þú hræddist og þær munu loða við þig. Enn fremur mun Drottinn senda yfir þig allar þær sóttir og plágur, sem ekki eru skráðar á þessa lögmálsbók, þar til þér hefur verið eytt. Þótt þið væruð áður jafnmörg og stjörnur himins verða einungis fá ykkar eftir af því að þið hlýdduð ekki boði Drottins, Guðs þíns. Á sama hátt og Drottinn hafði áður yndi af að gera vel við ykkur og fjölga ykkur, eins mun Drottinn hafa yndi af því að tortíma ykkur og eyða. Þið verðið rekin út úr landinu sem þú ert að halda inn í til að taka það til eignar. Drottinn mun dreifa þér meðal þjóðanna til ystu endimarka jarðar og þar muntu þjóna öðrum guðum, stokkum og steinum, sem hvorki þú né feður þínir vissu deili á. Meðal þessara þjóða færðu ekki að búa í næði og þar finnurðu fæti þínum engan hvíldarstað heldur mun Drottinn gefa þér órótt hjarta, döpur augu og bölsýni. Líf þitt mun hanga á bláþræði og þú verður hræddur dag og nótt, aldrei óhultur um líf þitt. Að morgni munt þú segja: „Ég vildi að komið væri kvöld,“ og að kvöldi: „Ég vildi að kominn væri morgunn,“ sakir óttans sem hefur gagntekið hjarta þitt og sakir þess sem þú mátt horfa á með eigin augum. Drottinn mun flytja þig á skipum aftur til Egyptalands, leiðina sem ég sagði við þig um: „Þú skalt aldrei sjá hana framar.“ Þar munuð þið bjóða sjálf ykkur fjandmönnum til kaups sem þræla og ambáttir en enginn vilja kaupa.
Þetta eru orð sáttmálans sem Drottinn fól Móse að gera við Ísraelsmenn í Móabslandi auk sáttmálans sem hann gerði við þá hjá Hóreb.