En ef þú hlýðir ekki Drottni, Guði þínum, með því að breyta eftir öllum boðum hans og lögum, sem ég set þér í dag, munu allar þessar bölvanir fram við þig koma og á þér hrína:
Bölvaður ert þú í borginni og bölvaður ert þú á akrinum.
Bölvuð er karfa þín og deigtrog.
Bölvaður er ávöxtur kviðar þíns og ávöxtur akurlands þíns, kálfar nauta þinna og lömb sauðfjár þíns.
Bölvaður ert þú þegar þú kemur heim og bölvaður ert þú þegar þú gengur út. Drottinn sendir yfir þig bölvun, upplausn og ógnun og yfir allt sem þú tekur þér fyrir hendur, yfir allt sem þú gerir. Svo verður uns þú hefur verið afmáður og skyndilega að engu gerður vegna illra verka þinna sem þú sveikst mig með. Drottinn lætur drepsótt loða við þig þar til hann hefur eytt þér úr landinu sem þú ert að fara inn í til þess að taka það til eignar. Drottinn slær þig með tæringu, hita, hitasótt og hitabruna, með þurrki, korndrepi og korngulnun. Þetta mun ásækja þig þar til þér hefur verið eytt. Himinninn yfir höfði þér verður að eir og jörðin undir fótum þér að járni. Drottinn breytir regni lands þíns í sand og ösku sem fellur yfir þig þar til þér hefur verið tortímt. Drottinn lætur fjandmenn þína sigra þig. Um einn veg heldur þú gegn þeim en um sjö vegu flýrð þú undan þeim. Þú munt vekja öllum konungsríkjum jarðar hroll. Hræ þín verða æti handa öllum fuglum himins og dýrum jarðar og enginn fælir þau burt. Drottinn slær þig egypskum kaunum, kýlum, kláða og útbrotum og enginn getur læknað þig. Drottinn slær þig vitfirringu, blindu og sturlun svo að þú þarft að þreifa þig áfram um hábjartan dag eins og blindur maður í myrkri og þér mun ekki farnast vel. Án afláts verður þú kúgaður og rændur og enginn hjálpar þér.