En ætíð hlýt ég að þakka Guði fyrir ykkur, bræður og systur, sem Drottinn elskar. Guð útvaldi ykkur til þess að þið yrðuð frumgróði til hjálpræðis. Guð lét andann helga ykkur og þið trúið á sannleikann. Til þessa kallaði hann ykkur. Hann lét mig boða ykkur fagnaðarboðskapinn um að þið skylduð öðlast hlutdeild í dýrð Drottins vors Jesú Krists. Systkin, standið því stöðug og haldið fast við þær postullegu kenningar er ég hef flutt ykkur munnlega eða með bréfi.
En sjálfur Drottinn vor Jesús Kristur og Guð, faðir vor, sem elskaði oss og gaf oss í náð eilífa huggun og góða von, huggi hjörtu yðar og styrki í sérhverju góðu verki og orði.
Að endingu, systkin: Biðjið fyrir mér að orð Drottins megi breiðast út og vera í heiðri haft eins og hjá ykkur og að ég mætti frelsast frá spilltum og vondum mönnum. Því að ekki er trúin allra.
En trúr er Drottinn og hann mun styrkja ykkur og vernda fyrir hinum vonda. En ég ber það traust til ykkar vegna Drottins að þið bæði gerið og munið gera það sem ég legg fyrir ykkur.
En Drottinn leiði hjörtu ykkar til kærleika Guðs og þolgæðis Krists.