Þeir sem sýktust vegna syndugs lífernis,
þjáðust vegna misgjörða sinna,
þeim bauð við allri fæðu
og þeir voru nærri dauðans dyrum.
Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni
og hann bjargaði þeim úr þrengingum þeirra,
sendi orð sitt og læknaði þá
og bjargaði þeim frá gröfinni.
Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans
og dásemdarverk hans við mannanna börn,
færa honum þakkarfórnir
og segja frá verkum hans með fögnuði.
Þeir sem fóru um hafið á skipum
og ráku verslun á hinum miklu höfum
sáu verk Drottins
og dásemdarverk hans á djúpinu.
Því að hann bauð og þá kom stormviðri
sem hóf upp öldur hafsins.
Þeir hófust til himins, hnigu í djúpið,
og þeim féllst hugur í háskanum.
Þeir skjögruðu og reikuðu eins og drukkinn maður
og kunnátta þeirra kom að engu haldi.
Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni
og hann bjargaði þeim úr þrengingum þeirra.
Hann breytti storminum í blíðan blæ
og öldur hafsins lægði.
Þeir glöddust þegar þær kyrrðust
og hann leiddi þá til þeirrar hafnar sem þeir þráðu.
Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans
og dásemdarverk hans við mannanna börn,
vegsama hann í söfnuði þjóðarinnar
og lofa hann í ráði öldunganna.