Sama dag gaf Móse fólkinu eftirfarandi fyrirmæli: „Þessir ættbálkar eiga að standa á Garísímfjalli til að blessa fólkið þegar þið eruð komin yfir Jórdan: Símeon, Leví, Júda, Íssakar, Jósef og Benjamín. En þessir ættbálkar eiga að standa á Ebalfjalli og lýsa yfir bölvun: Rúben, Gað, Asser, Sebúlon, Dan og Naftalí.
Síðan eiga Levítarnir að ávarpa alla Ísraelsmenn og hrópa hárri röddu:
Bölvaður er sá maður sem gerir skurðgoð eða steypt líkneski sem er Drottni viðurstyggð, handaverk smiðs, og reisir það á laun. Allt fólkið skal svara og segja: Amen.
Bölvaður er sá sem óvirðir föður sinn eða móður. Allt fólkið skal segja: Amen.
Bölvaður er sá sem færir landamerki nágranna síns úr stað. Allt fólkið skal segja: Amen.
Bölvaður er sá sem leiðir blindan mann af réttri leið. Allt fólkið skal segja: Amen.
Bölvaður er sá sem hallar rétti aðkomumanns, munaðarleysingja eða ekkju. Allt fólkið skal segja: Amen.
Bölvaður er sá sem leggst með konu föður síns því að hann hefur flett upp ábreiðu föður síns. Allt fólkið skal segja: Amen.
Bölvaður er sá sem hefur samræði við nokkra skepnu. Allt fólkið skal segja: Amen.
Bölvaður er sá sem leggst með systur sinni, hvort heldur hún er dóttir föður hans eða móður. Allt fólkið skal segja: Amen.
Bölvaður er sá sem leggst með tengdamóður sinni. Allt fólkið skal segja: Amen.
Bölvaður er sá sem vegur náunga sinn á laun. Allt fólkið skal segja: Amen.
Bölvaður er sá sem lætur múta sér til að vega saklausan mann. Allt fólkið skal segja: Amen.
Bölvaður er sá sem ekki virðir ákvæði þessara laga með því að fylgja þeim. Allt fólkið skal segja: Amen.“