Móse og öldungar Ísraels gáfu fólkinu eftirfarandi fyrirmæli:
„Haldið öll þau fyrirmæli sem ég set ykkur í dag. Þegar þið eruð komin yfir Jórdan og inn í landið sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér þá skalt þú reisa nokkra stóra steina. Þú skalt kalka þá að utan og skrifa á þá öll ákvæði þessa lögmáls þegar þú ert kominn yfir ána, svo að þú komist inn í landið sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér, land sem flýtur í mjólk og hunangi, eins og Drottinn, Guð feðra þinna, hefur heitið þér.
Þegar þið eruð komin yfir Jórdan skuluð þið reisa þessa steina á Ebalfjalli, sem ég hef gefið ykkur fyrirmæli um í dag, og kalka þá. Þar skaltu einnig reisa Drottni, Guði þínum, altari. Steinana máttu ekki höggva með járnverkfærum. Úr óhöggnum steinum skaltu reisa altari Drottins, Guðs þíns. Á því skaltu færa Drottni, Guði þínum, brennifórnir. Þú skalt slátra á því dýrum til heillafórnar og matast þar og gleðjast frammi fyrir Drottni, Guði þínum. Á steinana skaltu skrifa öll ákvæði þessa lögmáls með skýru letri.“
Móse og Levítaprestarnir ávörpuðu allan Ísrael og sögðu: „Ver hljóður og hlýð á, Ísrael! Í dag ertu orðinn lýður Drottins, Guðs þíns. Þú átt að hlýða rödd Drottins, Guðs þíns, og fylgja boðum hans og lögum sem ég set þér í dag.“