Minnstu þess hvernig Amalek lék þig á leiðinni þegar þið fóruð frá Egyptalandi. Án þess að óttast Guð réðst hann á þig á leiðinni, þegar þú varst þreyttur og uppgefinn, og vann á öllum sem voru orðnir örmagna og höfðu dregist aftur úr. Þess vegna skalt þú afmá allt undir himninum sem minnir á Amalek. Gleymdu því ekki þegar Drottinn, Guð þinn, hefur veitt þér frið fyrir öllum óvinum þínum kringum þig í landinu sem Drottinn, Guð þinn, fær þér að erfðahlut og þú tekur til eignar.
Þegar þú kemur inn í landið sem Drottinn, Guð þinn, er í þann veginn að fá þér að erfðahlut og þú hefur tekið það til eignar og ert sestur þar að, skaltu taka nokkuð af frumgróða allra ávaxta jarðar, sem þú flytur heim af landi þínu og Drottinn, Guð þinn, gefur þér, og láta í körfu. Síðan skaltu fara til þess staðar sem Drottinn, Guð þinn, velur til þess að láta nafn sitt búa þar. Þú skalt ganga fyrir prestinn sem þá gegnir embætti og segja við hann: „Nú játa ég fyrir Drottni, Guði þínum, að ég er kominn inn í landið sem Drottinn hét forfeðrum okkar að gefa okkur.“
Þegar presturinn tekur við körfunni úr hendi þér og setur hana niður frammi fyrir altari Drottins, Guðs þíns, skaltu taka til máls og játa frammi fyrir Drottni, Guði þínum: „Faðir minn var umreikandi Aramei og hann fór suður til Egyptalands fáliðaður og hlaut þar hæli sem aðkomumaður og varð þar að mikilli, öflugri og fjölmennri þjóð. En Egyptar léku okkur grátt, kúguðu okkur og lögðu á okkur þunga þrælavinnu. Þá hrópuðum við til Drottins, Guðs feðra okkar, og Drottinn heyrði hróp okkar og sá eymd okkar, þraut og ánauð. Og Drottinn leiddi okkur út úr Egyptalandi með sterkri hendi og útréttum armi og með mikilli skelfingu, táknum og stórmerkjum. Hann flutti okkur á þennan stað og gaf okkur þetta land, land sem flýtur í mjólk og hunangi. Nú færi ég þér frumgróðann af ávexti landsins sem þú hefur gefið mér, Drottinn.“