Þú skalt ekki horfa aðgerðalaus á naut eða sauðfé bróður þíns á flækingi heldur skalt þú þegar í stað reka þau aftur til hans. Búi bróðir þinn ekki í grennd við þig eða þú þekkir hann ekki skaltu hafa dýrið heim með þér og hafa það hjá þér þar til bróðir þinn leitar þess. Þá skaltu fá honum það aftur. Eins skaltu fara með asna hans, klæðnað eða hvað annað sem bróðir þinn týnir en þú finnur. Þannig skaltu fara með það. Þú skalt ekki láta það afskiptalaust. Þú skalt ekki horfa aðgerðalaus á asna bróður þíns eða uxa liggja afvelta á veginum. Þú skalt ekki leiða það hjá þér heldur ber þér að hjálpa honum að reisa þá á fætur.
Kona skal ekki bera karlmannaklæði og karlmaður skal ekki klæðast kvenfatnaði því að hver sem það gerir er Drottni, Guði þínum, viðurstyggð.
Ef þú rekst á hreiður með ungum eða eggjum á leið þinni, hvort heldur er uppi í tré eða á jörðinni, og móðirin liggur á ungum eða eggjum, máttu ekki taka móðurina með eggjunum eða með ungunum. Þú skalt sleppa móðurinni en ungana máttu taka svo að þér vegni vel og þú lifir langa ævi.
Þegar þú reisir nýtt hús skaltu gera brjóstrið umhverfis þakið svo að þú bakir húsi þínu ekki blóðsök ef einhver dytti ofan af þakinu.
Þú skalt ekki sá neinu innan um vínviðinn í víngarði þínum því að þá fellur til helgidómsins bæði það sem þú sáðir og uppskeran úr víngarðinum.
Þú skalt ekki plægja með nauti og asna saman.
Þú skalt ekki klæðast fatnaði sem ofinn er úr tvenns konar efni, ull og hör.
Þú skalt koma skúfum fyrir á fjórum hornum skikkju þinnar sem þú sveipar um þig.