Þú skalt ekki færa úr stað landamerki nágranna þíns sem forfeðurnir hafa sett í erfðalandi þínu sem kemur í hlut þinn í landinu sem Drottinn, Guð þinn, fær þér til eignar.
Ekki nægir eitt vitni á móti neinum þeim sem sakaður er um afbrot eða glæp, hvert svo sem brotið er. Því aðeins skal framburður gilda að tvö eða þrjú vitni beri.
En komi fram ljúgvitni gegn einhverjum og beri að hann hyggi á lögbrot skulu báðir sem hlut eiga að deilunni koma fram fyrir Drottin, prestana og dómarana sem þá gegna embætti. Dómararnir skulu rannsaka málsatvik rækilega. Komi þá í ljós að þetta er ljúgvitni, sem borið hefur bróður sinn lognum sökum, skuluð þið fara með hann eins og hann ætlaði að fara með bróður sinn og þannig skaltu eyða hinu illa þín á meðal. Hinir skulu frétta þetta svo að þeir skelfist og drýgi ekki framar þvílíkt ódæði þín á meðal. Þú skalt enga vægð sýna honum: Líf fyrir líf, auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, hönd fyrir hönd, fót fyrir fót.