Þú skalt ekki eta neitt viðbjóðslegt. Þetta eru dýrin sem þið megið eta: naut, sauðfé, geitur, hirtir, skógargeitur, dádýr, steingeitur, fjallageitur, antílópur og gemsur.
Þið megið eta öll dýr sem hafa klaufir, og þær alklofnar, og jórtra. En þessi dýr, sem jórtra og hafa alklofnar klaufir, megið þið ekki eta: úlfalda, héra og stökkhéra því að þau jórtra að vísu en hafa ekki klaufir. Þau skulu vera ykkur óhrein, einnig villisvínið því að það hefur klaufir en jórtrar ekki. Það skal vera ykkur óhreint. Þið megið hvorki leggja ykkur kjöt þessara dýra til munns né snerta hræ þeirra.
Af lagardýrum megið þið neyta alls sem hefur ugga og hreistur. En þið megið ekki eta neitt sem hvorki hefur ugga né hreistur. Það skal vera ykkur óhreint.
Alla hreina fugla megið þið eta. En þetta eru fuglarnir sem þið megið ekki eta: örninn, gammurinn, skegggammurinn, gleðan, ýmsar fálkategundir, hrafnakynið, strúturinn, uglan, mávurinn, haukakynið, hornuglan, náttuglan, snæuglan, pelíkaninn, hrægammurinn, súlan, storkurinn, lóukynið, herfuglinn og leðurblakan.
Öll vængjuð skordýr skulu vera ykkur óhrein, þau má ekki eta. En alla hreina fugla má eta.
Þið megið ekki eta neitt sjálfdautt. Þú mátt gefa það aðkomumanni í borgum þínum að eta eða þú getur selt það aðkomumanni. En þú ert Drottni, Guði þínum, helgaður lýður.
Þú skalt ekki sjóða geitakið í mjólk móður sinnar.