Þegar Drottinn, Guð þinn, hefur rutt þjóðunum úr vegi í landinu, sem þú ferð inn í til að vinna, og þú ert sestur að, gæt þín þá. Ánetjast ekki háttum þeirra eftir að þeim hefur verið rutt úr vegi þínum og þú skalt ekki spyrja um guði þeirra og segja: „Hvernig þjónuðu þessar þjóðir guðum sínum? Ég ætla að fara að eins og þær.“ Þannig skaltu ekki breyta við Drottin, Guð þinn, því að þegar þessar þjóðir þjónuðu guðum sínum gerðu þær allt sem Drottni, Guði þínum, er viðurstyggð og hann hatar. Jafnvel syni sína og dætur brenndu þær í eldi fyrir guði sína.
Þið skuluð halda kostgæfilega sérhvert boð sem ég set ykkur. Þú skalt engu við auka né heldur draga nokkuð undan.
Komi spámaður eða draumamaður fram ykkar á meðal og boði þér tákn og undur og táknið eða undrið rætist og hann segir: „Við skulum fylgja öðrum guðum en þeim sem þið hafið þekkt áður og við skulum þjóna þeim,“ skaltu ekki hlusta á orð þessa spámanns eða draumamanns því að Drottinn, Guð ykkar, er að reyna ykkur til að komast að því hvort þið elskið Drottin, Guð ykkar, af öllu hjarta ykkar og allri sálu.
Þið skuluð fylgja Drottni, Guði ykkar, óttast hann, halda boðorð hans, hlýða á boðskap hans, þjóna honum og halda ykkur fast við hann. En spámanninn eða draumamanninn skal taka af lífi því að hann hefur hvatt til fráhvarfs frá Drottni, Guði ykkar, sem leiddi ykkur út úr Egyptalandi og keypti ykkur frjáls úr þrælahúsinu. Hann reyndi að tæla þig af þeim vegi sem Drottinn, Guð þinn, hefur boðið þér að ganga. Þú skalt eyða hinu illa þín á meðal.