Þú skalt ekki neyta tíundar af korni þínu, víni eða olíu í borgum þínum né heldur frumburða nautgripa þinna og sauðfjár og ekki neinna þeirra gjafa, sem þú hefur heitið að færa Drottni, eða sjálfviljagjafa og afgjalda. Þessa skalt þú neyta frammi fyrir Drottni, Guði þínum, á staðnum sem Drottinn, Guð þinn, velur sér. Þú skalt neyta þess með sonum þínum og dætrum, þrælum þínum og ambáttum og Levítunum sem búa í borg þinni. Þá skaltu gleðjast frammi fyrir Drottni, Guði þínum, yfir öllu sem þú hefur aflað. En gæt þess vel að setja Levítana aldrei hjá svo lengi sem þú lifir í landi þínu.
Þegar Drottinn, Guð þinn, stækkar land þitt eins og hann hefur heitið þér og þú segir: „Ég ætla að fá mér kjöt,“ af því að þig langar í kjöt, þá máttu eta eins mikið kjöt og þig lystir. Ef staðurinn, sem Drottinn, Guð þinn, velur með því að setja nafn sitt á hann, er mjög fjarri þér skaltu slátra nautpeningi og sauðfé sem Drottinn hefur gefið þér eins og ég hef boðið og eta eins mikið og þig lystir í heimaborg þinni. Þú mátt neyta þess eins og þegar skógargeitar eða hjartar er neytt, það mega bæði óhreinir menn og hreinir eta saman. En varastu að neyta nokkurs af blóðinu því að blóðið er lífið sjálft og þú mátt ekki neyta lífsins ásamt kjötinu. Þú mátt ekki neyta þess heldur skaltu hella því á jörðina eins og vatni. Þú mátt ekki neyta þess svo að þér og niðjum þínum vegni vel af því að þú gerir það sem er rétt í augum Drottins.
En hin heilögu afgjöld, sem þér ber að greiða, og áheit, sem þú hefur lofað Drottni, skaltu hafa með þér til þess staðar sem Drottinn velur. Brennifórn þína, bæði kjötið og blóðið, skaltu færa á altari Drottins, Guðs þíns. Blóði sláturfórna þinna skal hellt á altari Drottins, Guðs þíns, en kjötið skalt þú eta.
Gæt þess að halda öll þessi boð, sem ég hef sett þér, svo að þér og niðjum þínum vegni ævinlega vel af því að þú gerir það sem gott er og rétt í augum Drottins, Guðs þíns.