En gætið þess að láta ekki ginna ykkur til að víkja af leið og þjóna öðrum guðum og sýna þeim lotningu. Þá mun reiði Drottins blossa upp gegn ykkur og hann lokar himninum svo að ekki mun rigna og akurinn ekkert gefa af sér. Þá verður ykkur brátt eytt úr landinu góða sem Drottinn gefur ykkur.
Leggið þessi orð mín ykkur á hjarta og huga, bindið þau sem tákn á hönd ykkar og þau skulu vera merki á milli augna ykkar. Kennið þau börnum ykkar með því að hafa þau yfir, bæði þegar þú ert heima eða á faraldsfæti og þegar þú leggst til svefns og ferð á fætur. Þú skalt skrifa þau á dyrastafi húss þíns og borgarhlið þín til þess að þið og börn ykkar lifið í landinu sem Drottinn hét feðrum ykkar að gefa þeim svo lengi sem himinn er yfir jörðu.
Ef þið haldið öll þau boð sem ég set ykkur til þess að framfylgja þeim og elskið Drottin, Guð ykkar, fylgið öllum vegum hans og haldið ykkur fast við hann, mun Drottinn ryðja öllum þessum þjóðum úr vegi ykkar og þið vinna þjóðir sem eru fjölmennari og voldugri en þið.
Hver sá staður, sem þið stígið fæti á, skal verða eign ykkar. Land ykkar skal ná frá eyðimörkinni til Líbanons, frá fljótinu, Efratfljótinu, og til hafsins í vestri. Enginn skal geta staðið gegn ykkur. Drottinn, Guð ykkar, mun senda ógn og skelfingu yfir allt landið sem þið stígið á eins og hann hefur heitið ykkur.
Sjá, í dag legg ég fyrir ykkur blessun og bölvun, blessunina ef þið hlýðið boðum Drottins, Guðs ykkar, sem ég set ykkur í dag, en bölvunina ef þið hlýðið ekki boðum Drottins, Guðs ykkar, og víkið af veginum sem ég legg fyrir ykkur að ganga og fylgið öðrum guðum sem þið hafið ekki áður þekkt.
Þegar Drottinn, Guð þinn, hefur leitt þig inn í landið, sem þú heldur nú inn í til að taka til eignar, skalt þú kunngjöra blessunina á Garísímfjalli og bölvunina á Ebalfjalli. Eru þau ekki handan við Jórdan, við veginn til vesturs í landi Kanverja sem búa við Móreeikurnar í Jórdanardal gegnt Gilgal?
Þið farið nú yfir Jórdan inn í landið sem Drottinn, Guð ykkar, gefur ykkur til að taka það til eignar. Þegar þið hafið slegið eign ykkar á það og eruð sestir þar að skuluð þið gæta þess að fylgja öllum lögunum og ákvæðunum sem ég legg fyrir ykkur nú í dag.