Þakkið Drottni, ákallið nafn hans,
gerið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna.
Syngið honum lof, leikið fyrir hann,
segið frá öllum máttarverkum hans.
Hrósið yður af hans heilaga nafni,
hjarta þeirra sem leita Drottins gleðjist.
Leitið Drottins og máttar hans,
leitið sífellt eftir augliti hans.
Minnist dásemdarverkanna sem hann vann,
tákna hans og dómanna sem hann kvað upp,
þér niðjar Abrahams, þjóns hans,
synir Jakobs sem hann útvaldi.
Hann er Drottinn, Guð vor,
um víða veröld gilda boð hans.
Hann minnist að eilífu sáttmála síns,
fyrirheitanna sem hann gaf þúsund kynslóðum,
sáttmálans sem hann gerði við Abraham
og eiðsins sem hann sór Ísak
og setti sem lög fyrir Jakob,
ævarandi sáttmála fyrir Ísrael.
Hann sagði: „Þér fæ ég Kanaansland,
það skal vera erfðahlutur yðar,“
þegar þeir voru fámennur hópur
og bjuggu þar sem fáliðaðir útlendingar.
Þeir reikuðu frá einni þjóð til annarrar,
frá einu konungsríki til annars.
Hann leið engum að kúga þá
en hegndi konungum þeirra vegna.
„Snertið eigi mína smurðu
og gerið eigi spámönnum mínum mein.“