Hver er lygari ef ekki sá sem neitar að Jesús sé Kristur? Sá er andkristurinn sem afneitar föðurnum og syninum. Hver sem afneitar syninum hefur ekki heldur fundið föðurinn. Sá sem játar soninn hefur og fundið föðurinn. En haldið áfram að ígrunda boðskapinn sem þið heyrðuð í upphafi. Ef þið haldið stöðuglega við það sem þið heyrðuð í upphafi, þá munuð þið einnig vera stöðug í samfélagi við soninn og föðurinn. Og þetta er fyrirheitið sem hann gaf okkur: Hið eilífa líf.
Þetta hef ég skrifað ykkur um þá sem eru að leiða ykkur afvega. Andinn, sem Kristur smurði ykkur með, býr í ykkur og þið þurfið þess ekki að neinn kenni ykkur því andi hans fræðir ykkur um allt, hann er sannleiki en engin lygi. Verið stöðug í honum eins og hann kenndi ykkur.
Og nú, börnin mín, lifið í samfélagi við hann til þess að við getum, þegar hann birtist, átt djörfung og blygðumst okkar ekki fyrir honum þegar hann kemur. Þið vitið að hann er réttlátur. Þá skiljið þið einnig að hver sem iðkar réttlætið er barn Guðs.
Sjáið hvílíkan kærleika faðirinn hefur auðsýnt okkur, að við skulum kallast Guðs börn. Og það erum við. Heimurinn þekkir okkur ekki vegna þess að hann þekkti hann ekki. Þið elskuðu, nú þegar erum við Guðs börn og það er enn þá ekki orðið bert hvað við munum verða. Við vitum að þegar hann birtist, þá verðum við honum lík því að við munum sjá hann eins og hann er. Hver sem hefur þessa von til hans hreinsar sjálfan sig eins og Kristur er hreinn.
Hver sem drýgir synd fremur lögmálsbrot. Syndin er lögmálsbrot. Þið vitið að Kristur birtist til þess að taka burt syndir. Í honum er engin synd. Hver sem er stöðugur í honum syndgar ekki, hver sem heldur áfram að syndga hefur ekki séð hann og þekkir hann ekki heldur.