Þú kynnir að hugsa: „Þessar þjóðir eru fjölmennari en ég, hvernig á ég að geta hrakið þær burt?“ En þú þarft ekki að óttast þær. Hafðu heldur hugfast hvernig Drottinn fór með faraó og alla Egypta. Þú sást með eigin augum hin voldugu máttarverk, tákn og undur og hvernig Drottinn, Guð þinn, leiddi þig út með sterkri hendi og útréttum armi. Eins mun Drottinn, Guð þinn, fara með allar þjóðirnar sem þú hræðist. Auk þess mun Drottinn, Guð þinn, láta örvæntingu koma yfir þær uns jafnvel þeim hefur verið tortímt sem af komast og fela sig fyrir þér.
Þú skalt ekki hræðast þær því að Drottinn, Guð þinn, er mitt á meðal ykkar, máttugur og ógnvekjandi Guð. Drottinn, Guð þinn, mun smám saman ryðja þessum þjóðum úr vegi fyrir þér. Þú munt ekki geta tortímt þeim í einni svipan svo að villidýrunum fjölgi ekki þér til skaða. En Drottinn, Guð þinn, mun gefa þessar þjóðir þér á vald. Hann mun gera þær frávita þar til þeim hefur verið gereytt. Hann mun gefa konunga þeirra þér á vald og þú munt afmá nöfn þeirra undir himninum. Enginn maður mun geta staðið gegn þér uns þú hefur gereytt þeim.
Skurðgoð þeirra skuluð þið brenna í eldi. Þú skalt ekki girnast silfrið eða gullið sem þau eru lögð og ekki halda því, ella verður það þér gildra því að það er Drottni þínum viðurstyggð. Þú mátt ekki flytja neina viðurstyggð í hús þitt því að þá verður þú helgaður banni eins og hún. Þú átt að hafa andstyggð og viðbjóð á henni því að hún er helguð banni.
Öll þau fyrirmæli sem ég set þér í dag skuluð þið halda svo að þið megið lifa og ykkur fjölgi og þið komist inn í og sláið eign ykkar á landið sem Drottinn hét feðrum ykkar. Hafðu hugfast hvernig Drottinn, Guð þinn, leiddi þig alla leiðina þessi fjörutíu ár í eyðimörkinni. Hann gerði það til að beygja þig og reyna þig, til þess að komast að raun um hvað þú hafðir í huga, hvort þú hygðist halda boðorð hans. Hann auðmýkti þig með hungri en gaf þér síðan manna að eta sem hvorki þú né forfeður þínir þekktu. Hann vildi gera þér ljóst að maðurinn lifir ekki á einu saman brauði heldur hverju því sem fram gengur af munni Drottins.
Hvorki slitnuðu klæði þín utan af þér né heldur þrútnuðu fætur þínir þessi fjörutíu ár. Af því geturðu lært að Drottinn, Guð þinn, elur þig upp eins og maður elur upp son sinn. Haltu því ákvæði Drottins, Guðs þíns, gakktu á hans vegum og óttastu hann.