Ekki var það vegna þess að þið væruð fjölmennari en allar aðrar þjóðir að Drottinn fékk ást á ykkur og valdi ykkur því að þið eruð fámennari en allar aðrar þjóðir. En sökum þess að Drottinn elskaði ykkur og hélt eiðinn sem hann sór feðrum ykkar leiddi hann ykkur út úr þrælahúsinu með sterkri hendi og keypti ykkur frjálsa úr hendi faraós Egyptalandskonungs. Vita skaltu: Drottinn, Guð þinn, hann einn er Guð, hinn trúfasti Guð sem heldur sáttmálann og veitir þeim heill í þúsund ættliði sem elska hann og halda boðorð hans. En hann endurgeldur þeim umsvifalaust sem hatar hann og afmáir hann. Hann hikar ekki heldur endurgeldur þeim umsvifalaust sem hatar hann. Þess vegna skaltu halda fyrirmælin, lögin og ákvæðin, sem ég set þér nú í dag, og framfylgja þeim.
Ef þið hlýðið á þessi ákvæði og haldið þau af kostgæfni mun Drottinn halda sáttmálann við þig og veita þér þá heill sem hann hét feðrum þínum. Hann mun elska þig, blessa þig og fjölga þér. Hann mun blessa ávöxt kviðar þíns og ávöxt lands þíns, korn þitt, vín, olíu, kálfa þína og lömb í landinu sem hann hét feðrum þínum að gefa þér. Þú munt hljóta meiri blessun en allar aðrar þjóðir. Meðal þín verður hvorki ófrjór karl né kona og ekkert af búfénaði þínum gelt. Drottinn mun bægja frá þér öllum sjúkdómum. Hann mun ekki leggja á þig neina af hinum þungbæru sóttum Egyptalands sem þú þekkir heldur mun hann leggja þær á fjandmenn þína. Þú skalt eyða öllum þjóðum sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér á vald. Hafðu enga samúð með þeim. Þú skalt ekki þjóna guðum þeirra því að þá gengur þú í gildru.