Þegar við snerum á leið upp til Basan kom Óg, konungur í Basan, ásamt öllum her sínum til að berjast við okkur hjá Edreí. Þá sagði Drottinn við mig: „Óttastu hann ekki. Ég hef selt hann, allan her hans og land í þínar hendur. Farðu með hann eins og þú fórst með Síhon, konung Amoríta, sem ríkti í Hesbon.“
Drottinn, Guð okkar, seldi einnig Óg, konung í Basan, allan her hans og land okkur í hendur. Við sigruðum hann og létum engan komast undan. Þá tókum við allar borgir hans. Engin var sú borg að við næðum henni ekki frá þeim. Við tókum sextíu borgir, allt Argóbhérað, konungsríki Ógs í Basan. Allar þessar borgir voru víggirtar háum múrum, hliðum með tveimur vængjum og slagbröndum. Auk þeirra voru fjölmörg óvíggirt þorp. Við helguðum þessar borgir banni, fórum með þær eins og Síhon, konung í Hesbon, og helguðum jafnt karla, konur og börn banni en tókum allt búfé og ránsfenginn úr borgunum herfangi.
Þá tókum við úr höndum beggja konunga Amoríta landið austan Jórdanar, frá Arnonfljóti að Hermonfjalli. Sídoningar nefna Hermon Sirjon en Ammónítar Senír. Við tókum allar borgirnar á hásléttunni, allt Gíleað, allt Basan allt til Salka og Edreí, allar borgir í konungsríki Ógs í Basan. En Óg, konungur í Basan, var einn eftir af Refaítum. Rúm hans var úr járni. Er það ekki í Rabba, höfuðborg Ammóníta? Það er níu álna langt og fjögurra álna breitt, mælt með venjulegu alinmáli. Þetta er landið sem við tókum til eignar. Ég fékk Rúben og Gað svæðið frá Aróer, sem er við Arnondalinn, ásamt hálfu Gíleaðfjalllendi og borgunum þar.
Það sem eftir var af Gíleað og allt Basan, sem hafði verið hluti af konungsríki Ógs, allt Argóbhérað, fékk ég hálfum ættbálki Manasse. Allt Basan kallast land Refaíta.