Eftir þá dvöl héldum við út í eyðimörkina og áleiðis til Sefhafsins eins og Drottinn hafði boðið mér og marga daga vorum við á leiðinni umhverfis Seírfjalllendið. Þá sagði Drottinn við mig: „Þið hafið nú farið nógu lengi um þetta fjalllendi. Haldið nú í norðurátt. Gefðu fólkinu þessi fyrirmæli: Þið eruð í þann veginn að fara um land bræðra ykkar, niðja Esaú, sem búa í Seír. Þeir munu óttast ykkur en gætið fyllstu varúðar. Ögrið þeim ekki. Ég mun ekki gefa ykkur svo mikið sem þverfet af landi þeirra því að ég fékk Esaú Seírfjalllendið til eignar. Þið skuluð greiða þeim fyrir korn til matar og jafnvel fyrir vatn til drykkjar.
Drottinn, Guð þinn, hefur blessað þig í öllu sem þú hefur tekið þér fyrir hendur. Hann vakti yfir för þinni yfir þessa miklu eyðimörk. Þessi fjörutíu ár hefur Drottinn, Guð þinn, verið með þér og þig ekki skort neitt.“ Síðan héldum við áfram frá bræðrum okkar, niðjum Esaú, sem búa í Seír, nokkuð frá leiðinni yfir sléttuna frá Elat til Esjón Geber, og héldum út í Móabseyðimörkina. Þá sagði Drottinn við mig: „Sýndu Móabítum engan fjandskap, ögra þeim ekki og láttu ekki skerast í odda með ykkur. Ég mun ekki gefa ykkur neitt af landi þeirra til eignar því að ég hef gefið niðjum Lots Ar til eignar.
Áður bjuggu þar Emítar, mikil þjóð, fjölmenn og stórvaxin eins og Anakítar. Þeir töldust til Refaíta eins og Anakítar en Móabítar nefndu þá Emíta. Forðum bjuggu Hórítar í Seír en niðjar Esaú slógu eign sinni á land þeirra og tortímdu Hórítum. Þeir settust þar að í þeirra stað eins og Ísrael gerði í eignarlandi sínu sem Drottinn hafði gefið þeim.
Búist nú til ferðar og farið þvert yfir Sereddalinn.“
Þá fórum við þvert yfir Sereddalinn.
Þrjátíu og átta ár liðu frá því að við fórum frá Kades Barnea og þar til við fórum yfir Saredá. Þá var heil kynslóð vopnfærra manna í herbúðunum dáin eins og Drottinn hafði svarið. Hönd Drottins var gegn þeim og olli upplausn í herbúðunum þar til þeim var gereytt.