Þegar Drottinn heyrði það sem þið sögðuð reiddist hann og sór: „Enginn af þessari illu kynslóð skal fá að sjá landið góða, sem ég sór að gefa forfeðrum ykkar, nema Kaleb Jefúnneson, hann skal sjá það. Ég mun gefa honum og sonum hans landið sem hann hefur stigið á því að hann hefur fylgt Drottni heils hugar.“ Drottinn reiddist mér einnig vegna ykkar og sagði: „Þú skalt ekki heldur komast þangað. En Jósúa Núnsson, sem þjónar þér, skal komast þangað. Stappaðu í hann stálinu því að hann á að skipta landinu í erfðalönd handa Ísrael. En börn ykkar, sem þið sögðuð að yrðu tekin herfangi, og synir ykkar, sem enn kunna ekki skil góðs og ills, munu komast þangað og þeim mun ég fá landið og þeir munu taka það til eignar. En þið skuluð snúa aftur í átt til eyðimerkurinnar og halda áleiðis til Sefhafsins.“
Þið svöruðuð og sögðuð við mig: „Við höfum syndgað gegn Drottni. En nú skulum við fara og berjast eins og Drottinn, Guð okkar, bauð.“ Því næst bjóst hver og einn ykkar herklæðum, tók vopn sín og taldi það hægðarleik að halda upp í fjalllendið.
En Drottinn sagði við mig: „Segðu við þá: Þið skuluð ekki fara og berjast því að ég verð ekki með ykkur. Ella bíðið þið ósigur fyrir fjandmönnum ykkar.“ Ég sagði ykkur þetta en þið hlustuðuð ekki og risuð gegn boði Drottins. Í ofdirfsku ykkar fóruð þið upp í fjalllendið og Amorítarnir, sem búa í þessu fjalllendi, réðust gegn ykkur, ráku ykkur á flótta og eltu ykkur eins og býflugnager og tvístruðu ykkur frá Seír allt til Horma. Þegar þið komuð aftur grétuð þið frammi fyrir Drottni. En hann heyrði ekki kveinstafi ykkar og hlustaði ekki á ykkur. Síðan voruð þið langa hríð um kyrrt í Kades, allan þann tíma sem þið dvöldust þar.