Hér á eftir fer ræðan sem Móse flutti öllum Ísraelsmönnum í eyðimörkinni austan við Jórdan. Hann flutti hana í Araba, austan við Súf, milli Paran og Tófel, Laban, Hatserót og Dí Sabab.
Frá Hóreb til Kades Barnea eru ellefu dagleiðir ef farin er leiðin í átt til Seírfjalla. Móse ávarpaði Ísraelsmenn á fertugasta árinu, á fyrsta degi ellefta mánaðarins. Hann flutti Ísraelsmönnum allt sem Drottinn hafði falið honum. Við Edrei hafði hann sigrað Síhon, konung Amoríta, sem ríkti í Hesbon og Óg, konung í Basan, sem ríkti í Astarót. Eftir það hóf Móse að brýna þennan boðskap fyrir fólkinu austan við Jórdan, í Móabslandi: Drottinn, Guð okkar, sagði við okkur við Hóreb: „Þið hafið dvalist nógu lengi við þetta fjall. Snúið ykkur nú í átt að fjalllendi Amoríta, leggið af stað og farið þangað. Haldið gegn öllum íbúum þess í Araba, á fjalllendinu og á láglendinu, í Suðurlandinu og á strönd hafsins. Haldið inn í land Kanverja og landsvæðið við Líbanon, alveg að hinu mikla fljóti Efrat. Hér með fæ ég ykkur landið. Farið og sláið eign ykkar á landið sem Drottinn sór að gefa feðrum ykkar, Abraham, Ísak og Jakobi, og niðjum þeirra.“
Þá sagði ég við ykkur: „Einn get ég ekki borið ykkur. Drottinn, Guð ykkar, hefur fjölgað ykkur svo mjög að þið eruð nú jafnmörg stjörnum himinsins. Megi Drottinn, Guð feðra ykkar, enn fjölga ykkur þúsundfalt og blessa ykkur eins og hann hefur heitið ykkur.
En hvernig á ég einn að geta borið þyngslin af ykkur, vandamál ykkar og deilur? Veljið þið nú vitra, skilningsríka og valinkunna menn úr hverjum ættbálki og mun ég skipa þá höfðingja ykkar.“ Þið svöruðuð mér og sögðuð: „Gott er það sem þú ræður okkur að gera.“ Þá sótti ég leiðtoga ættbálka ykkar, vitra menn og valinkunna, og setti þá höfðingja yfir ykkur, yfir þúsund manna flokka, hundrað manna, fimmtíu manna og tíu manna flokka. Ég setti þá einnig ritara fyrir hvern ættbálk ykkar.
Síðan gaf ég dómurum ykkar þessi fyrirmæli: „Hlýðið á mál bræðra ykkar. Kveðið upp réttláta dóma, hvort heldur málaferlin eru milli bræðra eða við aðkomumann sem nýtur verndar. Verið ekki hlutdrægir í dómum, hlýðið jafnt á háan sem lágan. Óttist engan mann því að dómurinn er Guðs. Reynist eitthvert mál ykkur um megn, þá skjótið því til mín og ég mun hlýða á það.“
Þá gaf ég ykkur fyrirmæli um allt sem ykkur ber að gera.