Öfundaðu ekki vonda menn
og láttu þig ekki langa til að vera með þeim
því að hjarta þeirra hyggur á ofbeldi
og varir þeirra ráðgera ógæfu.
Af speki er hús reist
og af skynsemi verður það staðfast,
fyrir þekkingu fyllast herbergin
alls konar dýrum og fögrum gripum.
Vitur maður er betri en sterkur
og fróður maður betri en aflmikill,
holl ráð skalt þú hafa þegar þú heyr stríð
og þar sem ráðgjöf er næg fer allt vel.
Viskan er afglapanum ofviða,
í borgarhliðinu lýkur hann ekki upp munni sínum.
Þann sem leggur stund á að gera illt
kalla menn varmenni.
Syndin er fíflslegt fyrirtæki
og spottarinn er mönnum andstyggð.
Látir þú hugfallast á degi neyðarinnar
er máttur þinn lítill.