Fágætissalur opnaður í Safnahúsinu.

Á Safnadeginum, sunnudaginn 18. maí, verður nýr og sérútbúinn fágætissalur opnaður í Safnahúsi Vestmannaeyja. Dagskráin hefst í Ráðhúsi Vestmannaeyja kl. 13:30.

Þar verður eitt merkilegasta fágætisbókasafn landsins opnað almenningi en uppistaðan í því er um 1.500 bækur sem Ágúst Einarsson, fyrrverandi prófessor og rektor á Bifröst hefur gefið Bókasafni Vestmannaeyja. Þar verður meðal annars að finna allar útgáfur Biblíunnar frá Guðbrandsbiblíu (1584), Þorláksbiblíu (1644) og Steinsbiblíu (1728) að telja.  Elsta bókin í safninu er vögguprent, frá 1498.

Þá verða einnig í fágætissalnum 37 málverk eftir Jóhannes Kjarval en Vestmannaeyjabær mun eiga eitt stærsta safn Kjarvalsverka sem loksins verða gerð aðgengileg á varanlegri sýningu. Verk eftir Júlíönu Sveinsdóttur prýða veggi sérstaks átthagarýmis með rösklega 2.000 bókum og blöðum, auk Íslandskorta frá um 1570.

Að lokinni dagskrá í Ráðhúsi Vestmannaeyja verður gengið yfir í Safnahúsið þar sem menningarmálaráðherra, herra Logi Einarsson opnar fágætissalinn formlega og  biskup Íslands frú Guðrún Karls Helgudóttir og dómsmálaráðherra frú Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir opna Biblíusýninguna.