Ég hrósa ykkur fyrir það að þið í öllu minnist mín og haldið fast við kenningarnar eins og ég flutti ykkur þær. En ég vil að þið vitið að Kristur er höfuð sérhvers karlmanns, að karlmaðurinn er höfuð konunnar og Guð höfuð Krists. Sérhver sá karlmaður, sem biðst fyrir eða flytur spádóma Guðs og hefur á höfðinu, hann óvirðir höfuð sitt. En sérhver kona, sem biðst fyrir eða flytur spádóma Guðs berhöfðuð, óvirðir höfuð sitt. Það er hið sama sem hún hefði látið krúnuraka sig. Ef konan því vill ekki hylja höfuð sitt, þá láti hún klippa sig. En ef það er óvirðing fyrir konuna að láta klippa eða raka hár sitt, þá hafi hún á höfðinu.
Karlmaður á ekki að hylja höfuð sitt því að hann er ímynd Guðs og endurspeglar dýrð hans en konan endurspeglar dýrð mannsins. Því ekki er karlinn af konunni kominn heldur konan af karlinum og ekki var heldur karlinn skapaður vegna konunnar heldur konan vegna karlsins. Þess vegna á konan að bera á höfði sér tákn um valdsvið sitt vegna englanna. Þó er hvorki konan óháð karlmanninum né karlmaðurinn konunni í samfélaginu við Drottin því að eins og konan er komin af karlinum, svo er og karlinn fæddur af konunni en allt er frá Guði.
Dæmið sjálf: Sæmir það konu að biðja til Guðs berhöfðuð? Kennir ekki sjálf náttúran ykkur að ef karlmaður ber sítt hár, þá er það honum vansæmd en ef kona ber sítt hár, þá er það henni sæmd? Því að síða hárið er gefið henni í höfuðblæju stað. En ætli nú einhver sér að gera þetta að kappsmáli, þá er slíkt ekki venja okkar eða safnaða Guðs.