Enn sagði Jesús við þá: „Ég fer burt og þér munuð leita mín en þér munuð deyja í synd yðar. Þangað sem ég fer getið þér ekki komist.“
Nú sagði fólkið: „Mun hann ætla að fyrirfara sér fyrst hann segir: Þangað sem ég fer getið þér ekki komist?“
En hann sagði við það: „Þér eruð neðan að, ég er ofan að. Þér eruð af þessum heimi, ég er ekki af þessum heimi. Þess vegna sagði ég yður að þér munduð deyja í syndum yðar. Því ef þér trúið ekki að ég sé sá sem ég er munuð þér deyja í syndum yðar.“
Fólkið spurði hann þá: „Hver ert þú?“ Jesús svaraði því: „Sá sem ég hef sagt yður frá upphafi. Margt hef ég um yður að tala og fyrir margt að dæma. En sá sem sendi mig er sannorður og það sem ég heyrði hjá honum, það tala ég til heimsins.“
Fólkið skildi ekki að hann var að tala við þá um föðurinn. Því sagði Jesús: „Þegar þér hefjið upp Mannssoninn munuð þér skilja að ég er sá sem ég er og að ég geri ekkert einn og sér heldur tala ég það eitt sem faðirinn hefur kennt mér. Og sá sem sendi mig er með mér. Hann hefur ekki látið mig einan því ég geri ætíð það sem honum þóknast.“ Þegar hann mælti þetta fóru margir að trúa á hann.