Kirkjusókn í Bretlandi hefur aukist um 50% á síðustu 6 árum, þvert á samfélagsumræðu um að kirkjan sé að hverfa. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar YouGov, sem var unnin fyrir Breska og erlenda biblíufélagið.
Rannsóknin sýnir að aukningin í kirkjusókn er mest meðal ungs fólks á tvítugsaldri, sér í lagi karlmanna. Árið 2018 sóttu um 4% fólks á aldrinum 18-24 ára kirkju a.m.k. mánaðarlega. Skv. þessari nýju rannsókn koma um 16% þeirra í kirkju mánaðarlega, þar af um 21% karla og 12% kvenna.
Dr Rhiannon McAleer einn meðhöfundur rannsóknarinnar bendir á að niðurstöðurnar gefi til kynna að hugmyndir um að staða kirkjunnar sé að veikjast séu ekki lengur réttar. „Þetta eru sláandi niðurstöður og ganga þvert gegn þeim hugmyndum sem við höfum haft um kirkjulíf í Englandi og Wales.“
„Vissulega eru sumar hefðbundnar kirkjur ennþá í tilvistarvanda, en við sjáum í rannsóknum okkar skýr merki um vöxt í kirkjustarfi, í mismunandi kirkjudeildum – sér í lagi hjá rómversk-katólsku kirkjunni og í Hvítasunnuhreyfingunni. Í Englandi og Wales er aukningin rúmlega 2 milljónir einstaklinga á síðustu 6 árum.
Rannsóknin sýnir einnig að karlmenn (13%) eru líklegri til að koma í kirkju en konur (10%). Þá sýnir rannsóknin að vöxturinn í kirkjulífi hefur leitt til aukins fjölbreytileika í kirkjunni, þannig skilgreina rétt um 20% kirkjugesta í Englandi og Wales sig af erlendum uppruna og um 47% ungs fólks sem er dökkt á hörund sækir kirkju mánaðarlega eða oftar.
Þá leiðir rannsóknin í ljós þær góðu fréttir að Biblíulestur og traust á orði Biblíunnar er að aukast jafnframt aukinni kirkjusókn. Um 67% þeirra sem fara í kirkju segjast lesa í Biblíunni a.m.k. vikulega.
Rannsóknin sýnir jafnframt að þau sem sækja kirkju eru líklegri til að leggja til samfélagsins, m.a. með þátttöku í sjálfboðnu starfi og stuðningi við góðgerðarmál.
Þá sýna rannsóknir að trúað fólk upplifir meiri vellíðan en þau sem ekki fara í kirkju, hafa sterkari tengingu við nærsamfélagið og upplifa minna stress og minni kvíða.
Rob Barward-Symmons annar meðhöfundur skýrslunnar nefnir að aukin kirkjusókn sé afleiðing þess að fólk sé að leita að merkingarbæru lífi. „Í samfélagi þar sem geðheilbrigðisvandi virðist fara vaxandi, einmanaleiki er að aukast, og fólk hefur tapað merkingu, sér í lagi meðal ungs fólks, þá virðist kirkjan hafa svör. Við sáum í niðurstöðunum að vellíðan var mun hærri hjá þeim sem sækja kirkju, en hjá þeim sem fara ekki í kirkju. Það sama á við um tengingu við nærsamfélagið, hún var meiri hjá þeim sem sækja kirkju. Þá sáum við að þau sem sækja kirkju reglulega voru ólíklegri til að segjast kvíðin eða þunglynd. Það átti sér í lagi við ungar konur.”
Paul Williams, framkvæmdastjóri Breska og erlenda biblíufélagsins fagnar rannsókninni og segir að „rannsóknin sé gífurlega mikilvæg og ætti að breyta viðhorfum til kristni og kirkjusóknar í Englandi og Wales. Kirkjan er fjarri því að stefna á sjálfsútrýmingu. Kirkjan er í raun og sann, lifandi og vaxandi. Starf hennar hefur jákvæð áhrif á einstaklinga og samfélagið allt.