Aðalfundur Hins íslenska Biblíufélags var haldinn miðvikudaginn 9. apríl 2025. Forseti félagsins og biskup Íslands, frú Guðrún Karls Helgudóttir setti aðalfundinn HÍB með lestri úr orði Guðs og bæn. Matthías Guðmundsson var kosinn fundarstjóri og Karítas Hrundar Pálsdóttir ritari.

Grétar Halldór Gunnarsson flutti skýrslu stjórnar þar sem stiklað var á stóru yfir verkefni félagsins á liðnu ári, en þau voru fjölmörg og bar þar hæst útgáfa hljóðbókar Biblíunnar á haustmánuðum. Þá kom fram að tekjur vegna Biblíusölu hafa aukist á árinu og fjáröflun gekk einstaklega vel. Var þar sérstaklega nefndur stuðningur frá Orðinu, félags um útbreiðslu orðs Guðs, sem studdi við hljóðbókarverkefnið.

Þá var nefnt í skýrslunni að framkvæmdastjórar Biblíufélaganna á Norðurlöndum og við Eystrasalt funduðu í Reykjavík 12. júní 2024.

Í lok skýrslunnar kom jafnframt fram að stjórn Biblíufélagsins hefur hafið athugun á nýþýðingu eða endurskoðun á þýðingu Biblíunnar frá 2007. Verkið er mjög stutt á veg komið, en Sameinuðu Biblíufélögin hafa útnefnt þýðingarráðgjafa sem mun vera Hinu íslenska biblíufélagi til halds og trausts í verkefninu.

Guðni Már Harðarson kynnti ársreikning félagsins, en félagið skilaði rekstrarhagnaði í fyrsta skipti í mörg ár. Stafaði það m.a. af góðum stuðningi fjölmargra aðila og einskiptistekjum m.a. vegna prentútgáfu Biblíunnar. Guðni Már lagði áherslu á að styrkja þyrfti fastar tekjur félagsins með fjölgun félagsfólks og bakhjarla sem styðja við félagið með reglubundnum hætti.

Kjósa þurfti tvo einstaklinga í stjórn félagsins. Stjórnarfólkið sem var að ljúka sínu kjörtímabili gaf kost á sér að nýju.  Það voru þau Irma Sjöfn Óskarsdóttir og Fjalar Freyr Einarsson. Þau voru sjálfkjörin þar sem ekki voru aðrir sem gáfu kost á sér.

Sigurbjörg Níelsdóttir og Pétur Þorsteinsson voru kjörin félagslegir endurskoðendur.

Stjórnin lagði til að félagsgjöld yrðu óbreytt milli ára, 3900 krónur og það var samþykkt samhljóða.

Undir liðnum önnur mál kvaddi Guðni Einarsson sér hljóðs og ræddi um framboð, útgáfur og eldri upplestur á Biblíunni. Hann hvatti til fjölbreytileika í hljóðbókarútgáfum og spurði hvort hægt væri að gera upptökur Forlagsins á guðspjöllunum aðgengilegar almenningi.

Þá hvatti Guðni til uppfærslu Biblíuþýðingarinnar í stað heildstæðra endurþýðinga; hann vill gera Biblíuna aðgengilegri krökkum sem finnst þau skilja betur ensku en íslensku (t.d. laga tvítöluna „faðir vor“ og gera texta nútímalegri).

Í lok fundar tók Halldór Pálsson til máls til að lýsa yfir þakklæti til stjórnarfólks fyrir stjórnarsetuna.