En svo að ég minnist á það sem þið hafið ritað, þá er það gott fyrir mann að vera ekki við konu kenndur. En til þess að forðast saurlífi hafi hver karlmaður sína eiginkonu og hver kona sinn eiginmann. Karlmaðurinn gæti skyldu sinnar gagnvart konunni og sömuleiðis konan gagnvart karlmanninum. Ekki hefur konan vald yfir eigin líkama heldur karlmaðurinn. Sömuleiðis hefur og karlmaðurinn ekki heldur vald yfir eigin líkama heldur konan. Haldið ykkur eigi hvort frá öðru nema þá eftir samkomulagi um stundarsakir til þess að þið getið haft næði til bænahalds og takið svo saman aftur til þess að Satan freisti ykkar ekki vegna ístöðuleysis ykkar. Þetta er ekki neitt valdboð heldur ábending. En þess óska ég að allir menn væru eins og ég er sjálfur en hver hefur sína náðargjöf frá Guði, einn þessa og annar hina.
Hinum ógiftu og ekkjunum segi ég að þeim er best að halda áfram að vera ein eins og ég. En hafi þau ekki taumhald á sjálfum sér, þá gangi þau í hjónaband því að betra er að ganga í hjónaband en að brenna af girnd.
Þeim sem gengið hafa í hjónaband býð ég, þó ekki ég heldur Drottinn, að konan skuli ekki skilja við mann sinn, en hafi hún skilið við hann, þá sé hún áfram ógift eða sættist við manninn. Maðurinn á ekki heldur að skilja við konuna.
En við hina segi ég, ekki Drottinn: Ef bróðir nokkur á vantrúaða konu og hún lætur sér það vel líka að búa saman við hann, þá skilji hann ekki við hana. Og kona, sem á vantrúaðan mann og hann lætur sér vel líka að búa saman við hana, skilji ekki við hann. Því að vantrúaði maðurinn er helgaður af konunni og vantrúaða konan er helguð af bróðurnum. Annars væru börn ykkar óhrein en nú eru þau hrein. En ef hinn vantrúaði vill skilja, þá fái hann skilnað. Hvorki bróðir né systir eru þrælbundin í slíkum efnum. Guð hefur kallað ykkur að lifa í friði. Því að hvað veist þú, kona, hvort þú munir geta frelsað mann þinn? Eða hvað veist þú, maður, hvort þú munir geta frelsað konu þína?