Því að orð krossins er heimska þeim er stefna í glötun en okkur sem hólpin verðum er það kraftur Guðs. Ritað er:
Ég mun eyða speki spekinganna
og hyggindi hyggindamannanna mun ég að engu gera.
Hvar er vitringur? Hvar fræðimaður, orðkappi þessa heims? Er ekki það sem heimurinn telur speki heimska í augum Guðs?
Enda þótt speki Guðs sé í heiminum gátu mennirnir ekki þekkt Guð með sinni speki. Þess vegna ákvað Guð að boða það sem er heimska í augum manna og frelsa þá sem trúa. Gyðingar heimta tákn og Grikkir leita að speki en við prédikum Krist krossfestan, Gyðingum hneyksli og heiðingjum heimsku en okkur sem Guð hefur kallað, bæði Gyðingum og Grikkjum, Krist, kraft Guðs og speki Guðs. Því að heimska Guðs er mönnum vitrari og veikleiki Guðs mönnum sterkari.
Minnist þess, systkin, hvernig þið voruð þegar Guð kallaði ykkur: Mörg ykkar voru ekki vitur að manna dómi, ekki voldug eða ættstór. En Guð hefur útvalið það sem heimurinn telur heimsku til að gera hinum vitru kinnroða og hið veika í heiminum til þess að gera hinu volduga kinnroða. Og hið lítilmótlega í heiminum, það sem heimurinn telur einskis virði, hefur Guð útvalið til þess að gera að engu það sem er í metum. Enginn maður skyldi hrósa sér fyrir Guði. Honum er það að þakka að þið eruð í samfélagi við Krist Jesú. Hann er orðinn okkur vísdómur frá Guði, bæði réttlæti, helgun og endurlausn. Eins og ritað er: „Sá sem vill hrósa sér hrósi sér í Drottni.“