Komið, fögnum fyrir Drottni,
látum gleðióp gjalla fyrir kletti hjálpræðis vors.
Göngum fyrir auglit hans með þakkargjörð,
syngjum gleðiljóð fyrir honum.
Því að Drottinn er mikill Guð
og mikill konungur yfir öllum guðum.
Í hendi hans eru jarðardjúpin
og fjallatindarnir heyra honum til,
hans er hafið, hann hefur skapað það
og hendur hans mynduðu þurrlendið.
Komið, föllum fram og tilbiðjum,
beygjum kné vor fyrir Drottni, skapara vorum.
Því að hann er vor Guð
og vér erum gæslulýður hans,
hjörðin sem hann gætir.
Ó, að þér í dag vilduð heyra raust hans:
Herðið ekki hjörtu yðar eins og við Meríba,
eins og daginn hjá Massa í eyðimörkinni
þegar feður yðar freistuðu mín,
reyndu mig þó að þeir sæju verk mín.
Í fjörutíu ár bauð mér við þessari kynslóð
og ég sagði: „Hjarta þessa fólks hefur villst af leið,
það ratar ekki vegu mína.“
Ég sór því í reiði minni:
„Þeir skulu eigi ná til hvíldarstaðar míns.“