Ó, hversu einmana er nú borgin
sem áður var svo mannmörg,
orðin eins og ekkja,
sú er voldug var meðal þjóðanna,
drottningin meðal héraðanna
orðin kvaðarkona.
Hún grætur sáran um nætur
og tárin streyma ofan vanga hennar.
Af öllum ástmönnum hennar
er enginn til að hugga hana.
Allir vinir hennar brugðust henni,
þeir eru orðnir óvinir hennar.
Eftir neyð og þunga ánauð
er Júda útlægur orðinn.
Hann dvelst meðal heiðingjanna
og finnur engan hvíldarstað.
Allir ofsækjendur hans eltu hann uppi
í þrengingum hans.
Vegirnir til Síonar syrgja
því að engir koma til hátíðanna.
Öll hlið hennar eru auð,
prestar hennar andvarpa,
meyjar hennar eru harmþrungnar
og sjálf er hún angistarfull.
Fjandmenn hennar hrósa sigri,
óvinir hennar hlakka yfir hlut sínum.
Því að Drottinn þjakaði hana
vegna hennar mörgu synda,
börn hennar voru herleidd,
rekin á undan óvininum.
Frá dótturinni Síon
er allt skart horfið.
Höfðingjar hennar eru eins og hirtir
sem ekkert haglendi finna,
magnþrota flýðu þeir
undan ofsækjandanum.
Á dögum eymdar sinnar og hraknings
minnist Jerúsalem
allra kjörgripa sinna
er hún átti forðum daga.
Þegar þjóð hennar féll í hendur kúgarans
og enginn hjálpaði henni
horfðu óvinirnir á hana
og hlökkuðu yfir hrakförum hennar.
Jerúsalem syndgaði stórlega,
sökum þess varð hún að viðurstyggð.
Allir þeir er dáðu hana fyrirlíta hana
af því að þeir hafa séð nekt hennar.
Sjálf andvarpar hún
og snýr sér undan.
Saurugleiki hennar loðir við klæðafald hennar,
hún leiddi ekki hugann að því sem hennar beið.
Hún féll undradjúpt,
enginn varð til að hugga hana.
Lít, Drottinn, á eymd mína
því að óvinirnir hrósa sigri.
Óvinurinn rétti út hönd sína,
seildist eftir dýrgripum hennar.
Hún sá að heiðingjarnir
gengu inn í helgidóm hennar
en þeim hafðir þú bannað
að ganga í söfnuð þinn.
Allur lýður hennar andvarpar,
leitar sér viðurværis,
lætur dýrgripi sína fyrir matbjörg
til þess að draga fram lífið.
Sjá þú, Drottinn, og lít á
hversu ég er fyrirlitin.