Og hann sýndi mér móðu lífsvatnsins, skæra sem kristall. Hún rann frá hásæti Guðs og lambsins eftir miðju stræti borgarinnar. Beggja vegna móðunnar var lífsins tré sem ber tólf sinnum ávöxt. Í hverjum mánuði ber það ávöxt sinn. Blöð trésins eru til lækningar þjóðunum. Engin bölvun mun framar til vera. Og hásæti Guðs og lambsins mun vera í borginni og þjónar hans munu þjóna honum. Þeir munu sjá ásjónu hans og nafn hans mun vera á ennum þeirra. Nótt mun ekki framar til vera og þeir þurfa hvorki lampaljós né sólarljós því að Drottinn Guð skín á þá og þeir munu ríkja um aldir alda.

Og engillinn sagði við mig: „Þessi eru orðin trúu og sönnu. Og Drottinn Guð, sem veitir spámönnunum anda sinn, sendi engil sinn til að sýna þjónum sínum það sem verða á innan skamms. Sjá, ég kem skjótt. Sæll er sá sem varðveitir spádómsorð þessarar bókar.“