Og ég sá einn engil standa inni í sólinni. Hann hrópaði hárri röddu til allra fuglanna sem flugu um himinhvolfið: „Komið, safnist saman til hinnar miklu máltíðar Guðs til þess að eta hold konunga, herforingja og kappa og til að eta hold hesta og þeirra sem á þeim sitja og hold allra, bæði frjálsra og ófrjálsra, smárra og stórra.“
Og ég sá dýrið og konunga jarðarinnar og hersveitir þeirra safnaðar saman til að heyja stríð við þann sem á hestinum sat og við herlið hans. Og dýrið var handtekið og ásamt því falsspámaðurinn sem hafði látið dýrið gera táknin. Með þeim hafði hann leitt þá afvega sem höfðu fengið merki dýrsins og tilbeðið líkneski þess. Þeim báðum var kastað lifandi í eldsdíkið sem logar af brennisteini. Og hinir voru drepnir með sverðinu sem gekk út af munni þess sem á hestinum sat. Allir fuglarnir söddust af hræjum þeirra.

Og ég sá engil stíga niður af himni. Hann hélt á lykli undirdjúpsins og stórum fjötri í hendi sér. Og hann tók drekann, þann gamla höggorm, sem er djöfull og Satan, og batt hann um þúsund ár. Hann kastaði honum í undirdjúpið, læsti því og setti innsigli yfir svo að hann leiddi ekki framar þjóðirnar afvega uns þúsund ár væru liðin. Eftir það á hann að vera leystur um stuttan tíma.