Sterkur engill tók upp stein, eins og mikinn kvarnarstein, kastaði í hafið og sagði: „Svo voveiflega mun Babýlon kollvarpast, borgin mikla, svo að engar menjar skulu eftir verða. Og hörpusláttur og sönglist, pípuhljómur og lúðurþytur skal ekki framar heyrast í þér og engir iðnaðarmenn munu framar stunda iðn sína í þér og kvarnarhljóð skal eigi framar heyrast í þér. Lampaljós skal eigi framar í þér lýsa og raust brúðguma og brúðar skal eigi framar heyrast í þér. Kaupmenn þínir voru höfðingjar jarðarinnar og allar þjóðir leiddust í villu af töfrum þínum. Í borginni fannst blóð spámanna og heilagra og allra þeirra sem drepnir hafa verið á jörðunni.“

Eftir þetta heyrði ég sem sterkan ym mikils fjölda á himni. Hann sagði:
Hallelúja! Hjálpræðið, dýrðin og mátturinn kemur frá Guði vorum.
Sannir og réttlátir eru dómar hans.
Hann hefur dæmt skækjuna miklu sem spillti jörðunni með saurlifnaði sínum
og hann hefur refsað henni fyrir að deyða þjóna sína.

Og aftur var sagt: „Hallelúja! Reykurinn frá henni stígur upp um aldir alda.“ Og öldungarnir tuttugu og fjórir og verurnar fjórar féllu fram og tilbáðu Guð sem í hásætinu situr og sögðu: „Amen, hallelúja!“

Og rödd barst frá hásætinu er sagði: „Lofsyngið Guði vorum, allir þjónar hans sem óttist hann, smáir og stórir.“