Kain kenndi konu sinnar og hún varð þunguð og fæddi Enok. Kain byggði borg og nefndi hana í höfuðið á Enok, syni sínum. Enok fæddist Írad. Írad gat Mehújael. Mehújael gat Metúsael. Metúsael gat Lamek. Lamek tók sér tvær konur. Hét önnur Ada en hin Silla.
Ada ól Jabal. Hann varð ættfaðir þeirra sem búa í tjöldum og eiga búfé. Júbal hét bróðir Jabals. Hann varð ættfaðir þeirra sem leika á strengjahljóðfæri og flautur.
Silla ól einnig son, Túbal-Kain, sem smíðaði hvers kyns verkfæri úr eir og járni. Systir Túbal-Kains hét Naama.
Lamek sagði við konur sínar:
Ada og Silla, hlýðið á orð mín.
Konur Lameks, gefið gaum að ræðu minni.
Ég drep mann fyrir hvert sár sem ég hlýt
og ungmenni fyrir hverja skeinu.
Verði Kains hefnt sjö sinnum
þá skal Lameks verða hefnt sjötíu og sjö sinnum.

Adam kenndi enn konu sinnar og hún ól son og kallaði hann Set, „því að,“ sagði hún, „nú hefur Guð gefið mér annað afkvæmi í stað Abels sem Kain drap.“
Set fæddist sonur og hann nefndi hann Enos.
Þá hófu menn að ákalla nafn Drottins.