Adam kenndi Evu, konu sinnar. Hún varð þunguð og fæddi Kain og mælti: „Ég hef eignast sveinbarn með hjálp Drottins.“
Síðar fæddi hún Abel, bróður hans. Abel varð hjarðmaður en Kain akuryrkjumaður.
Einhverju sinni færði Kain Drottni fórn af ávexti jarðarinnar. Abel færði einnig fórn af frumburðum hjarðar sinnar og feiti þeirra. Drottinn gaf gaum að Abel og fórn hans en leit ekki við Kain og fórn hans. Þá reiddist Kain mjög og varð þungur á brún. Drottinn sagði við Kain: „Hví reiðist þú og ert þungur á brún? Er ekki svo að þú getur verið upplitsdjarfur ef þú gerir rétt, en gerir þú rangt þá liggur syndin við dyrnar? Hún girnist þig en þú getur sigrast á henni.“
Þá sagði Kain við Abel, bróður sinn: „Göngum út á akurinn.“ Og er þeir voru á akrinum réðst Kain á Abel, bróður sinn, og drap hann. Þá sagði Drottinn við Kain: „Hvar er Abel, bróðir þinn?“ Kain svaraði: „Það veit ég ekki. Á ég að gæta bróður míns?“ Drottinn sagði: „Hvað hefurðu gert? Blóð Abels, bróður þíns, hrópar til mín af jörðinni. Þess vegna skaltu vera bölvaður og burtrekinn af jörðinni sem opnað hefur munn sinn og tekið á móti blóði bróður þíns er þú úthelltir. Þegar þú yrkir jörðina skal hún ekki framar gefa þér uppskeru sína. Landflótta og flakkandi skaltu vera á jörðinni.“
Kain sagði við Drottin: „Sekt mín er meiri en svo að ég fái borið hana. Nú hefur þú rekið mig burt af landinu. Ég verð að fela mig fyrir augliti þínu, landflótta og flakkandi um jörðina. Þá getur hver sem finnur mig drepið mig.“ Drottinn sagði við Kain: „Svo skal ekki verða. Hver sem drepur Kain skal sæta sjöfaldri hefnd.“
Og Drottinn setti merki á Kain til þess að enginn sem rækist á hann dræpi hann. Og Kain gekk burt frá augliti Drottins og settist að í landinu Nód, fyrir austan Eden.