Þá sagði Guð: „Jörðin leiði fram lifandi skepnur, hverja eftir sinni tegund, búfé, skriðdýr og villidýr, hvert eftir sinni tegund.“ Og það varð svo.
Guð gerði villidýrin, hvert eftir sinni tegund, búfé eftir sinni tegund og hvers konar skriðdýr jarðarinnar eftir sinni tegund. Og Guð sá að það var gott.
Þá sagði Guð: „Vér viljum gera manninn eftir vorri mynd, líkan oss. Hann skal drottna yfir fiskum sjávarins, fuglum loftsins, búfénu, villidýrunum og allri jörðinni og öllum skriðdýrum sem skríða á jörðinni.“
Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. Hann skapaði hann eftir Guðs mynd. Hann skapaði þau karl og konu.
Guð blessaði þau. Og Guð sagði við þau: „Verið frjósöm, fjölgið ykkur og fyllið jörðina, gerið ykkur hana undirgefna og ríkið yfir fiskum sjávarins og fuglum himinsins og öllum dýrum sem hrærast á jörðinni.“
Og Guð sagði: „Nú gef ég ykkur allar sáðjurtir jarðarinnar og öll aldintré sem bera ávöxt með fræi. Þau skulu vera ykkur til fæðu. Og öllum dýrum jarðarinnar, öllum fuglum himinsins, öllum skriðdýrum jarðarinnar, öllu sem hefur lífsanda í sér, gef ég öll grös og jurtir til fæðu.“ Og það varð svo.
Og Guð leit allt sem hann hafði gert, og sjá, það var harla gott.
Og það varð kvöld og það varð morgunn, hinn sjötti dagur.
Himinn og jörð voru nú fullgerð og öll þeirra prýði.
Á sjöunda degi lauk Guð verki sínu og hvíldist hinn sjöunda dag frá öllu því er hann hafði unnið.
Og Guð blessaði sjöunda daginn og helgaði hann því að þann dag hvíldist Guð frá öllu sköpunarverki sínu sem hann hafði unnið að.
Þetta er sagan um uppruna himins og jarðar.