Biblíudagurinn er haldinn hátíðlegur sunnudaginn 23. febrúar. Á Biblíudaginn hefur verið hefð að taka samskot í kirkjum og kristnum trúfélögum til stuðnings Hins íslenska biblíufélags.

Útvarpsmessan sunnudaginn 23. febrúar verður tileinkuð Biblíudeginum. Halldór Elías Guðmundsson framkvæmdastjóri Hins íslenska biblíufélags mun prédika.

Það er 441 ár síðan að Biblían í heild var fyrst prentuð á íslensku. Guðbrandur biskup nýtti sér nýjustu tækni síns tíma til að koma texta Biblíunnar á framfæri. Biblíufélagið fetar í fótspor Guðbrands, og leitar stöðugt nýrra leiða til að gera ritninguna aðgengilega sem flestum. Birting ritningartexta á samfélagsmiðlum, áskrift að daglegum Biblíulestrum í tölvupósti, stafrænt aðgengi að Biblíunni á vefsíðu og í smáforritum eru allt hluti af því verkefni. Þá kom Biblían út í heild á hljóðbók í ágúst 2024. Biblíufélagið hefur jafnframt nýtt sér framþróun í stafrænni prenttækni, m.a. við útgáfu altarisbiblíu sem kom út í lok árs 2023.

Hið íslenska biblíufélag tekur þátt í samstarfi Biblíufélaga um allan heim og hefur á liðnum árum stutt við útbreiðslu Guðs orðs í Kína, á Haiti og í Sýrlandi.

Verkefni Hins íslenska Biblíufélags hefur verið skýrt frá stofnun félagsins. Við vonum að sem flestar kirkjur taki þátt í Biblíudeginum nú í ár og leggi okkur lið við það mikilvæga verkefni að gera Biblíuna aðgengilega sem flestum.