Gott mannorð er dýrmætara en mikill auður,
vinsældir eru betri en silfur og gull.
Ríkur og fátækur mætast
en Drottinn skapaði báða.
Vitur maður sér ógæfuna og felur sig
en einfeldningarnir halda áfram og gjalda þess.
Laun auðmýktar og ótta Drottins
eru auður, sæmd og líf.
Þyrnar og snörur eru á vegi hinna fláráðu,
sá sem annt er um líf sitt forðast þá.
Fræð hinn unga um veginn sem hann á að halda
og á gamals aldri mun hann ekki af honum víkja.
Ríkur maður drottnar yfir fátækum
og lánþeginn verður þræll lánardrottins síns.
Sá sem sáir ranglæti uppsker ógæfu,
sproti heiftar hans verður að engu.
Hinn örláta munu menn blessa
því að hann gefur hinum fátæka af brauði sínu.
Rektu spottarann burt, þá hverfur deilan
og þá linnir þrætu og smán.
Sá sem ástundar hreinleika hjartans
vinnur hylli konungs með geðfelldum orðum vara sinna.
Augu Drottins gæta viskunnar
en orðum svikarans kollvarpar hann.
Letinginn segir: „Ljón er úti fyrir,
ég verð drepinn fari ég út.“
Djúp gröf er munnur framandi kvenna,
sá sem verður fyrir reiði Drottins fellur í hana.
Setjist heimskan að í hjarta sveinsins,
þá mun vöndur agans reka hana þaðan.
Að kúga fátækan sér til ávinnings
er eins og að gefa ríkum manni;
hvort tveggja verður til þess eins að gera mann snauðan.