Höfundur: Cody J. Sanders. Greinin birtist fyrst á ensku á vefsíðunni https://enterthebible.org og er birt á íslensku með leyfi höfundar. (This article was first published on https://enterthebible.org)

Ég minnist þess að hafa tekið viðtal við Thomas, þar sem hann lýsti langri sögu af trúarlegu ofbeldi í sinn garð. Thomas er samkynhneigður og upplifði sjálfan sig sem viðurstyggilegan frá unga aldri. Þessi ofbeldisfulla upplifun varð til þegar hann heyrði ákveðna Biblíutexta prédikaða í kirkjunni þar sem hann ólst upp. Það voru nokkrir textar sérstaklega sem kölluðu fram þessa neikvæðu sjálfsmynd (1Mós 19.1-38, 3Mós 18.22 og 20.13, Róm 1.25-27, 1Kor 6.9-11, 1Tím 1.9-10 og Júdas 6-7). Það tók Thomas mörg ár að vinna úr þeim andlega sársauka sem hann varð fyrir.

Það er ekki erfitt að ímynda sér hversu undrandi ég varð þegar Thomas sagði við mig: „Biblían er stórkostleg, ég elska ritið allt. Auðvitað skapar sumt ónot hjá mér, en það er fegurð í Biblíunni. Ég skilningur minn á Biblíunni er ekki bókstaflegur, og það hjálpar mér. Biblían er eins og bakpoki fyrir skáta. Ég fer með bókina hvert sem ég fer, og mismunandi vers hjálpa mér í gegnum lífið.“ Thomas hafði tileinkað sér flókið og fallegt samband við Biblíuna.

Hvernig getum við elskað, verið þakklát fyrir og nálgast Biblíuna þegar einstaklingar og kirkjur hafa notað Biblíuna til að valda svona miklum skaða?

Það er ekki bara skaðinn gagnvart samfélagi hinsegin fólks. Biblíutúlkanir hafa réttlætt andlegt og jafnvel líkamlegt ofbeldi gagnvart fjölmörgum – konum, hinsegin samfélaginu, lituðu fólki, frumbyggjum, innflytjendum, börnum og mökum, til að nefna fáeina hópa. Biblíutúlkanir hafa jafnvel verið notaðar til að réttlæta þjóðarmorð (t.d. á frumbyggjum Norður Ameríku), þrælahald og verið grundvöllur fjölmargra stríðsátaka.

Á sama tíma hefur ritningin verið grundvallarrit til að réttlæta og kalla eftir byggingu á sjúkrahúsum og fangelsum. Biblían hafði mikil áhrif í baráttunni fyrir menntun svartra íbúa í Bandaríkjunum en var um leið notuð til að réttlæta sérstaka heimavistarskóla fyrir frumbyggja. Þannig hefur Biblían verið grunnur frelsunarguðfræði og grunnur þeirrar guðfræði sem frelsunarguðfræðin barðist gegn.

Það er ekki til einfalt samspil Biblíunnar og trúarsannfæringar

Stundum er reynt að einfalda stöðu Biblíunnar, leitað leiða til að finna einhvers konar réttan og góðan skilning á ritningunni. Oft er það gert með að túlka einstaka hluta Biblíunnar sem ómikilvæga eða úrelta, og/eða segja að þau sem nota Biblíuna til að réttlæta ofbeldi séu „ekki alvöru kristin“. En heiðarlegur lestur Biblíunnar, heiðarleg nálgun á kristna trú, krefst þess að við skiljum og viðurkennum að kraftur Biblíunnar getur leitt til góðs, en getur líka skapað gífurlegan harm. Við sjáum það í gegnum söguna, og við höfum jafnvel upplifað það í eigin lífi.

Prédikun okkar, kennsla og lestur á Biblíunni þarf að vera viðurkenna þetta  flókna samspil. Þegar við mætum texta sem er erfitt að lesa, þurfum við horfast í augu við textann af forvitni. Uppgötva hvað liggur að baki textans – leitast við að skilja hvers konar texta er um að ræða, kynna okkur upprunalegt samhengi og skoða mismunandi túlkanir í gegnum söguna. Vönduð fræðslurit og rannsóknarvefir eins og Enter the Bible (https://enterthebible.org/), geta nýst vel.

Þau sem starfa sem prédikarar eða kennarar í kirkju eða kristnu samfélagi þurfa að vera heiðarleg þegar þau fjalla um Biblíutexta sem hafa verið túlkaðir til að skaða annað fólk. Þau þurfa að vera tilbúin til að gangast við ábyrgðinni á því að kirkjur hafa misnotað trúarlega texta, bæði í fortíð og nútíð, í stað þess að afneita sögunni. Í framhaldinu þurfa þau síðan að hjálpa trúarsamfélaginu til að greina og læra meira um vitnisburð Biblíunnar um fagnaðarerindið, og kalla okkur öll til þjónustu við Guð og hvort við annað.

Að gangast við Biblíutextanum og okkar eigin fordómum

Biblían er ekki eitthvað eitt. Hún er bókasafn mismunandi radda, frá mismunandi stöðum og mismunandi tímum. Textinn skapar fjölbreytilega mynd af heiminum og mismunandi raddir í textanum skapa spennu og á stundum andstæður.

Ef við lesum stakar setningar í Biblíunni, þá þarf það að gerast í samhengi við textann í heild. Þegar átök eiga sér stað í textanum, t.d. milli orðanna „Sælir eru friðflytjendur“ í Matteus 5.9 og orðanna: „Ætlið ekki að ég sé kominn að færa frið á jörð. Ég kom ekki að færa frið heldur valda sundrungu“, sem birtast nokkrum köflum síðar í Matteus 10.34. Þá er eitthvað í spennunni milli þessara tveggja orða Jesú sem kallar á athygli og ígrundun.

Það er mikilvægt að forðast Biblíuskilning sem leitast við að kalla fram andstæður á milli Gamla- og Nýja testamentisins. Slíkur skilningur er oft andgyðinglegur, eða kallar í besta falli fram villandi og ógagnlegar hugmyndir um hebresku ritningarnar. Orð Gamla testamentisins eru ekki í andstöðu við líf og starf Jesú, heldur hjálpa þau okkur við að skilja hver Jesús var (og er).

Það er mikilvægt að skilja samhengi textans sem við lesum. Stærsti hluti Gamla testamentisins er skrifaður meðan hebreska þjóðin var í útlegð frá heimalandi sínu, eða skömmu eftir að útlegðinni lauk og meðan landið bar enn skýr merki styrjaldarátaka. (Ef við skiljum að textinn er skrifaður í kjölfar harðneskju og stríðsátaka, þá getur það hjálpað okkur að skilja harðneskjulega texta um stríð og hefndir á nýjan hátt). Nýja testamentið gerist og var skrifað meðan Palestína og Ísraelsþjóðin voru hernumin af rómverska heimsveldinu. Þegar við lesum textann frá sjónarhorni forréttinda og vestrænnar menningar, þá er einfalt að nota textann sem réttlætingu fyrir að beita þá sem veikar standa ofbeldi.

Lesum Biblíuna með augum þeirra sem veikar standa vegna yfirgangs þeirra sem völdin hafa.

Við erum ekki þau einu sem lesum og túlkum Biblíuna. Lestur og túlkun Biblíunnar er samfélagsverkefni allra, ekki hlutverk einstaklinga, einstakra safnaða eða kirkjudeilda. Biblían er og hefur verið lesin og túlkuð í þúsundir ára um allan heim. Það er mikilvægt fyrir okkar að hlusta á fjölbreyttar raddir, sérstaklega raddir og túlkanir sem eru ólíkar okkar eigin, svo við getum skilið textann betur, svo við getum elskað textann meira.

Túlkanir kvenna, minnihlutahópa, hinsegin samfélagsins, fólks sem lifir við kúgun eða undir ægivaldi nýlendustefnu eru mikilvægar. Fólk úr öllum þessum hópum hefur skrifað um Biblíuna og getur kennt okkur fjölmargt um hvernig Biblían hefur verið notuð til að skaða aðra og réttlæta ofbeldi, en ekki síður hvernig texti Biblíunnar getur verið lífgefandi og upplífgandi fagnaðarerindi, „gleðilegur boðskapur fyrir fátæka, sem boðar bandingjum lausn og blindum sýn og lætur þjáða lausa”, eins og Jesús las úr Jesaja spámanni í samkunduhúsinu skv. Lúkas 4:18.

Biblían kallar þau sem segjast kristin til að gera það sem er rétt (m.a. í 2Mós 2:20-22, Jesaja 58:6-7 og Lúkas 6:20-22), standa með þeim sem lifa á jaðri samfélagsins, hvort sem er innan ríkis eða kirkju. Siðferðisboðskapur um að standa með þeim sem lifa á jaðrinum getur mótað lestur okkar á Biblíunni. Ef túlkun textans réttlætir aðgreiningu og ofbeldi – ef túlkun textans leyfir okkur að útiloka aðra frá samfélaginu við Guð eða samfélaginu hvort við annað, þá er það túlkun sem þarf að mótmæla, ekki með því að yfirgefa Biblíuna, heldur með túlkun sem hjálpar okkur móts við kærleik og réttlæti.

Um höfundinn

Cody J. Sanders er lektor í Safnaðar- og samfélagssálgæslu við Luther Seminary í Minneapolis, Bandaríkjunum. Sander er vígður prestur í baptistakirkjunni og þjónaði söfnuði í Cambridge, Massachusetts. Hann þjónaði jafnframt sem stúdentaprestur í Harvard háskóla og við MIT. Hann hefur gefið út fjölda bóka um sálgæslu. Hægt er að kynna sér starf Sanders á vefslóðinni https://www.luthersem.edu/faculty/cody-sanders/