Faðir hans og móðir undruðust það er sagt var um hann. En Símeon blessaði þau og sagði við Maríu móður hans: „Þessi sveinn er settur til falls og til viðreisnar mörgum í Ísrael. Hann verður tákn sem menn munu rísa gegn.
Sjálf munt þú sverði níst í sálu þinni. Þannig munu hugsanir margra hjartna verða augljósar.“
Og þar var Anna spákona Fanúelsdóttir af ætt Assers, kona háöldruð. Hún hafði lifað sjö ár með manni sínum þegar hann dó og síðan verið ekkja fram á áttatíu og fjögurra ára aldur. Hún vék eigi úr helgidóminum en þjónaði Guði nótt og dag með föstum og bænahaldi. Hún kom að á sömu stundu og lofaði Guð. Og hún talaði um barnið við alla sem væntu lausnar Jerúsalem.
Og er þau höfðu lokið öllu, sem lögmál Drottins bauð, sneru þau aftur til Galíleu, til borgar sinnar Nasaret. En sveinninn óx og styrktist, fylltur visku, og náð Guðs var yfir honum.