Þá er Jesús hafði mælt svo fyrir við lærisveina sína tólf hélt hann þaðan að kenna og prédika í borgum þeirra.
Jóhannes heyrði í fangelsinu um verk Krists. Þá sendi hann honum orð með lærisveinum sínum og spurði: „Ert þú sá sem koma skal eða eigum við að vænta annars?“
Jesús svaraði þeim: „Farið og kunngjörið Jóhannesi það sem þið heyrið og sjáið: Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindi. Og sæll er sá sem ekki hneykslast á mér.“
Þegar þeir voru farnir tók Jesús að tala til mannfjöldans um Jóhannes: „Hvað fóruð þér að sjá í óbyggðum? Reyr af vindi skekinn? Hvað fóruð þér að sjá? Prúðbúinn mann? Nei, prúðbúna menn er að finna í sölum konunga. Til hvers fóruð þér? Að sjá spámann? Já, segi ég yður, og það meira en spámann. Hann er sá sem um er ritað:
Ég sendi sendiboða minn á undan þér,
hann á að greiða þér veg.