Þið skuluð halda hvíldardaga mína því að hvíldardagurinn er tákn milli mín og ykkar frá kyni til kyns svo að þið játið að ég er Drottinn sá sem helgar ykkur. Haldið hvíldardaginn því að hann skal vera ykkur heilagur. Hver sem vanhelgar hann skal líflátinn því að hver sem vinnur þá einhver dagleg störf skal upprættur úr þjóð sinni. Sex daga skaltu vinna en sjöundi dagurinn er algjör hvíldardagur, helgaður Drottni. Sérhver, sem vinnur verk á hvíldardegi, skal líflátinn. Ísraelsmenn skulu virða hvíldardaginn með því að halda hvíldardaginn frá kyni til kyns sem ævarandi sáttmála. Hann er ævarandi tákn milli mín og Ísraelsmanna því að Drottinn gerði himin og jörð á sex dögum en sjöunda daginn hvíldist hann og endurnærðist.“
Þegar Drottinn hafði talað við Móse á Sínaífjalli fékk hann honum báðar sáttmálstöflurnar, steintöflur, skráðar með fingri Guðs.